Innlent

Orsök fjölda alvarlegra slysa

Ekið yfir heila línu. Fjölmörg alvarleg umferðarslys hafa orðið þegar ökumenn aka yfir heila línu á þjóðvegunum.
Ekið yfir heila línu. Fjölmörg alvarleg umferðarslys hafa orðið þegar ökumenn aka yfir heila línu á þjóðvegunum.

Fjölmörg alvarleg umferðarslys hafa orðið vegna aksturs yfir óbrotna línu á þjóðvegum landsins. Einar Magnús Magnússon, upplýsingafulltrúi umferðarstofu, segir mjög algengt að ekið sé yfir heilar línur og telur víst að ökumenn geri sér ekki grein fyrir hættunni sem því fylgir.

„Heil lína er til að láta ökumenn vita að það er hættulegt að aka framúr og þar af leiðandi er það bannað,“ segir Einar Magnús.

Að hans sögn hefur fjöldi alvarlegra slysa orðið í umferðinni vegna svona háttalags. „Það er til fjöldi dæma um mjög alvarleg slys vegna þess að menn taka sénsinn á þessu.“

Ásgeir Þór Ólafsson ók um Hellisheiðina á dögunum og varð þess áskynja að ökumaður bílsins á eftir honum ætlaði að taka framúr með því að aka yfir óbrotna línu. Ásgeir fékk samferðamann sinn til að mynda athæfið.

Hann segist oft hafa orðið vitni að akstri sem þessum. „Það þarf ekki að fara oft um Hellisheiðina til að sjá svona lagað og að auki fara fjölmargir framúr á vegöxlinni vinstra megin við akreinina,“ segir Ásgeir, sem líkt og Einar Magnús hvetur menn til að láta af þessu háttalagi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×