Innlent

Skeikaði aðeins um fimmtán sentimetra

Risabor Impregilo boraði sig í gegnum síðasta berghaftið í aðrennslisgöngum Kárahnjúkavirkjunar um ellefuleytið í gærmorgun. Þar með lauk tveggja ára og fimmtán kílómetra löngu ferðalagi borsins undir Fljótsdalsheiði og skeikaði aðeins um fimmtán sentimetra.

Þetta er mjög stór áfangi fyrir Impregilo, segir Ómar Valdimarsson, talsmaður Impregilo á Íslandi. Nú þegar þessum áfanga er lokið eru það ekki nema um tveir kílómetrar sem á eftir að bora í allri þessari jarðgangagerð fyrir aðrennslisgöngin. Þar af leiðandi er þetta ansi stór dagur.

Um hundrað manns voru viðstaddir þegar borinn fór í gegn. Af öryggisástæðum var honum ekki ýtt af fullu afli seinustu metrana og tók það um klukkustund að bora í gegnum seinasta haftið sem var tæpir tveir metrar að þykkt. Þar sem borinn var stöðvaður eru um hundrað og fimmtíu metrar upp á yfirborðið.

Ómar segist hafa verið í göngunum þegar borinn braut seinasta haftið. Það var tekið mjög vel á móti þeim mönnum sem komu í gegnum síðasta berghaftið. Við merktum stóran hring þar sem við ætluðum bornum að koma í gegn og honum skeikaði um fimmtán sentimetra á þessari fimmtán kílómetra leið. Við teljum það ansi gott, segir hann.

Borinn, sem kallast TBM1, verður nú tekinn í sundur og sendur úr landi. Hann fer í önnur verkefni eftir uppherslu hjá framleiðandanum. Borarnir tveir sem eru eftir, TBM2 og TBM3 bora hvor á móti öðrum og eiga eftir um tveggja kílómetra leið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×