Viðskipti erlent

Rússar með hlut í móðurfélagi Airbus

Farþegar fara um borð í risaþotu frá Airbus í byrjun mánaðar.
Farþegar fara um borð í risaþotu frá Airbus í byrjun mánaðar. Mynd/AP

Rússneski ríkisbankinn Vneshtorgbank hefur keypt 5 prósenta hlut í EADS, móðurfélagi evrópska flugvélaframleiðandans Airbus.

EADS eignaðist allt hlutafé í Airbus eftir að breska félagið British Aerospace (BAE) ákvað að selja því 20 prósenta hlut sinn í flugvélaframleiðandanum fyrir jafnvirði 240 milljarða íslenskra króna fyrr í þessum mánuði. Franska ríkið og bílaframleiðandinn DaimlerChrysler eru á meðal stórra hluthafa í EADS.

Árið hefur ekki verið gott fyrir félagið. Gengi hlutabréfa í EADS hefur lækkað mikið vegna ítrekaðra tafa á framleiðslu A380 risaþotum frá Airbus og urðu tveir af æðstu stjórnendum beggja félaga að segja af sér af þessum sökum.

Tilraunaflug risaþotanna í byrjun þessa mánaðar gafst vel og er fyrirhugað að afhenda Singapore Airlines fyrstu vélarnar fyrir árslok.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×