Innlent

Kennarar krafnir um endurgreiðslu launa

Verkfall 2004 Kennarar eru nú krafðir um ofgreidd laun frá 2004 vegna mistaka starfsmanns Reykjavíkurborgar.
Verkfall 2004 Kennarar eru nú krafðir um ofgreidd laun frá 2004 vegna mistaka starfsmanns Reykjavíkurborgar. MYND/E.ól

Fimmtán grunnskólakennurum í Reykjavík er gert að endurgreiða ofgreidd laun frá árinu 2004. Mannlegum mistökum starfsmanns borgarinnar er um að kenna. Upphæðirnar nema frá tugum þúsunda en þeir sem verst verða úti þurfa að greiða á annað hundrað þúsund króna.

Ingunn Gísladóttir, starfsmannastjóri menntasviðs Reykjavíkurborgar, segir ofgreiðsluna tilkomna í kennaraverkfallinu haustið 2004. „Það var samið við kennara um fyrirframgreiðslu sem kæmi til frádráttar næstu mánaðamót á eftir. Um síðustu mánaðamót kom í ljós að þessi greiðsla var ekki tekin til baka.“

Ingunn segir að um mannleg mistök sé að ræða. „Ég geri mér fullkomlega grein fyrir að þetta er afskaplega óheppilegt.“ Spurð hvort ekki hafi komið til greina að borgin bæri kostnaðinn vegna þessara mistaka segir Ingunn að engar heimildir séu fyrir slíku. „Ábyrgðin er líka að hluta til hjá starfsmanninum sem tekur við greiðslunni.“

Ólafur Loftsson, formaður Félags grunnskólakennara, segir kennara hafa leitað til félagsins vegna málsins og búið sé að koma mótmælum til borgaryfirvalda vegna þess. „Þeir kennarar sem tóku við þessum launum í góðri trú gátu ekki vitað að þeir hefðu fengið ofgreitt. Á þeim forsendum finnst okkur afar ósanngjarnt að krefjast endurgreiðslu á þennan hátt núna.“ Ólafur segir að leitað verði til borgarinnar um lausn málsins en ef það skili ekki árangri þá muni lögfræðingur félagsins fá málið til umfjöllunar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×