Innlent

Sjónmengun af völdum háspennulína

háspennulínur Möstur sem reist voru í sumar við bæinn Eyrarteig í Skriðdal í Fljótsdalshéraði.
háspennulínur Möstur sem reist voru í sumar við bæinn Eyrarteig í Skriðdal í Fljótsdalshéraði. mynd/sigurður arnarsson

 Náttúruvaktin mótmælir harðlega þeim áætlunum Landsnets að leggja háspennulínur frá Hellisheiðarvirkjun vegna þeirrar gríðarlegu sjónmengunar sem þær munu valda.

Landsnet undirbýr nú framkvæmdir við háspennulínur frá fyrir­huguðum virkjunum á Ölkelduhálsi og við Hverahlíð, og frá Hellisheiðarvirkjun í Ölfusi, að Geithálsi í Reykjavík og Straumsvík í Hafnarfirði. Mat á umhverfisáhrifum þessara framkvæmda er að hefjast og gefst almenningi kostur á að koma með athugasemdir við drög að matsáætlun fram til 29. september.

Ásta Þorleifsdóttir, sem situr í stjórn Náttúruvaktarinnar, segir óforsvaranlegt að hafa háspennulínur ofanjarðar svo nálægt þéttbýli. "Landsneti ber skylda til að bera saman kosti þess að leggja háspennulínur í jörð eða ofanjarðar." Ásta telur skammtíma gróðahyggju of ráðandi og að þegar litið sé til lengri tíma sé alls óvíst að ódýrara sé að leggja háspennulínur ofanjarðar með tilheyrandi viðhaldskostnaði.

Í drögum að matsáætlun Landsnets, sem kynnt voru á sunnudag, segir að kostnaður við jarðstrengi á lægstu spennu sé sambærilegur við loftlínu en hækki hratt með aukinni spennu, einkum þegar komið er upp fyrir 132 kílóvatta spennu. Af þeim sökum sé ekki reiknað með jarðlínu sem valkosti nema aðstæður verði með þeim hætti að ekki sé um aðra lausn að ræða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×