Innlent

Öræfi og sjálflýsandi svín

„Ég fékk snemma áhuga á náttúrunni. Það var ekki síst fósturforeldrum mínum að þakka en þær voru ófáar gönguferðirnar sem við fórum saman í þegar ég var barn,“ segir Þorvarður Árnason, forstöðumaður Háskóla­setursins á Hornafirði. Þorvarður er líffræðingur og doktor í náttúruheimspeki. Hann segir þá námsblöndu hafa orðið til þegar hann starfaði sem landvörður samhliða námi. „Í starfinu dvaldi ég lengi á öræfum. Þar kynntist ég náttúruverndarsjónarmiðum og mikilvægi þess að vernda þessi stórkostlegu svæði. Síðar kynntist ég svo sið- og fagurfræðilegu hliðinni á þessu máli og þannig vafði þetta upp á sig,“ segir Þorvarður.

Helstu rannsóknir hans hafa snúið að verndun villtrar náttúru en hann hefur einnig látið siðferðilegar spurningar á sviði líftækni sig varða. Í gær hélt hann fyrirlestur, ásamt dr. Einari Mäntylä plöntusameindaerfðafræðingi, sem bar yfirskriftina: Má bjóða þér sjálflýsandi svín.

„Við fjölluðum um erfðabreytt matvæli. Sú fæða hefur sína kosti og galla. Þeir bjartsýnustu telja að líftækni muni leysa fæðuvanda heimsins. Aftur á móti eru uppi töluverðar efasemdir um þessi mál, til að mynda hvort erfðabreytt matvæli séu jafn holl og önnur og hvaða áhrif ræktun þeirra geti haft á náttúruna. Ég veit að það eru margir möguleikar í þessu en engu að síður vil ég að það sé farið að öllu með gát,“ segir Þorvarður, sem notar einnig tækifærið til að benda á að lítil þekking sé til um þessi mál og því tilvalið fyrir efnilega nemendur að kanna þau, einkum siðferðilegu hliðina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×