Innlent

Skaut heimiliskött með riffli

Á góðri stundu Kiddi og Didda voru mestu mátar. Didda var skotin af nágranna með riffli og hefur nágranninn játað verknaðinn.
Á góðri stundu Kiddi og Didda voru mestu mátar. Didda var skotin af nágranna með riffli og hefur nágranninn játað verknaðinn. Mynd/KK

Karlmaður á sjötugsaldri hefur játað við yfirheyrslur hjá lögreglunni á Egilsstöðum að hafa skotið heimiliskött á Egilsstöðum í bakgarði vídeóleigunnar Vídeóflugunnar 6. maí síðastliðinn. Vopnið sem hann notaði var 22 kali­bera riffill. Ástæða verknaðarins, að sögn mannsins, var sú að hann vildi passa upp á fuglalífið í garðinum við íbúðarhús sitt.

Kristinn Kristmundsson, eigandi kattarins, segir að eina leiðin fyrir manninn til að skjóta köttinn þennan dag hafi verið að skjóta hann af svölum íbúðarhúss síns. Kristinn lýsti atvikum á eftirfarandi hátt í samtali við Fréttablaðið: „Didda skreið helsærð úr bakgarðinum inn í íbúðarhúsið þar sem henni blæddi út. Hún komst inn í húsið og ég fann hana við rúm þar sem hún hefur ætlað sér að fara uppí. Þá var hún rænulaus en svo dó hún á meðan ég var að tala við lækninn.“ Kristinn hefur fengið staðfest hjá dýralækni að kúlan gekk inn við rófuna á kettinum, rauf slagæð í afturfæti og fór út í gegnum kviðarholið. Hann segir verknaðinn enn alvarlegri fyrir þá sök að ungt barn var í garðinum stuttu áður en dýrið var skotið og börn séu að leik við húsið allt árið um kring.

Að sögn lögreglunnar á Egilsstöðum er málið enn í rannsókn en að sögn lögfræðings varðar athæfi mannsins við hegningarlög, skotvopnalög og dýraverndunarlög. Skaðabótaskylda í máli eins og þessu mun vera ótvíræð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×