Innlent

Skífan sektuð um 65 milljónir

Í verslun Hagkaupa Samningur sem Skífan gerði við Hagkaup árin 2003 og 2004 braut í bága við samkeppnislög.
Í verslun Hagkaupa Samningur sem Skífan gerði við Hagkaup árin 2003 og 2004 braut í bága við samkeppnislög.

Viðskipti Skífan þarf að greiða 65 milljónir króna í stjórnvaldssekt fyrir að hafa misnotað markaðsráðandi stöðu sína. Áfrýjunarnefnd staðfesti í gær fyrri ákvörðun Samkeppniseftirlitsins þar að lútandi.

Í ákvörðun Samkeppniseftirlitsins frá 16. júní var Skífan (sem nú heitir Dagur Group) fundin sek um að hafa misnotað markaðsráðandi stöðu sína og brotið þannig gegn bannákvæðum samkeppnislaga. „Þetta gerði Skífan með gerð ólögmætra samninga við Hagkaup um sölu á hljómdiskum og tölvuleikjum, annars vegar á árinu 2003 og hins vegar á árinu 2004,“ segir Samkeppniseftirlitið, en Hagkaup skuldbundu sig til að kaupa í heildsölu tiltekið hlutfall af diskum og leikjum, eingöngu af Skífunni. „Með samningunum voru keppinautar Skífunnar í heildsölu á hinum tilgreindu vörum nánast útilokaðir frá viðskiptum við Hagkaup,“ segir Samkeppniseftirlitið og kveður Skífuna með þessu hafa ítrekað brot sitt sem fjallað hafi verið um í ákvörðun samkeppnisráðs árið 2001 og í hæstaréttardómi árið 2004.

Dagur Group skaut málinu til áfrýjunarnefndar, sem telur að brot Skífunnar hafi verið bæði augljós og alvarleg og að forsvarsmönnum fyrirtækisins hafi mátt vera ljóst að að umræddir samningar færu gegn samkeppnis­lögum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×