Innlent

Fjölmörg ríki heita stuðningi

Valgerður Sverrisdóttir
Utanríkisráðherra hefur rætt við ráðherra fjölda ríkja í New York.
Valgerður Sverrisdóttir Utanríkisráðherra hefur rætt við ráðherra fjölda ríkja í New York.

Valgerður Sverrisdóttir utanríkisráðherra hefur kynnt framboð Íslands til setu í Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna fyrir fulltrúum fjölmargra ríkja síðustu daga. Valgerður, sem er í New York vegna allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna, hefur rætt við forsætisráðherra Andorra, varaforsætisráðherra Búlgaríu, lögmann Færeyja og utanríkisráðherra Ekvador, Laos, Lúxemborgar, Máritaníu, Óman, San Marínó, Slóvakíu og Súdan.

Ríkisstjórn Íslands samþykkti í október 1998 að sækjast eftir sæti í Öryggisráðinu árin 2009-2010 og var tilkynnt formlega um framboðið á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna haustið 2003. Kosið verður 2008.

Geir H. Haarde forsætisráðherra segir fjölmörg ríki hafa heitið stuðningi við framboð Íslands, þó ekki nógu mörg til að tryggja kosningu. „Þess vegna er nauðsynlegt að halda þessu áfram, þetta er eins og hver önnur kosningabarátta,“ sagði Geir í samtali við Fréttablaðið.

Ríkisstjórnin ákvað að halda kostnaði við framboðið í lágmarki en engu að síður gera áætlanir ráð fyrir að hann nemi yfir sex hundruð milljónum króna. „Ráðherrar taka þetta upp ef þeir eru á ferðinni en við erum ekki með kostnaðar­sama útgerð í kringum þetta,“ sagði Geir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×