Enski boltinn

Liverpool valtaði yfir Tottenham

Dirk kuyt. Hollendingurinn skoraði eitt mark fyrir Liverpool í gær og hefur nú skorað í síðustu tveimur leikjum fyrir liðið. Hér fagnar hann marki sínu í gær við mikinn fögnuð stuðningsmanna Liverpool.
Dirk kuyt. Hollendingurinn skoraði eitt mark fyrir Liverpool í gær og hefur nú skorað í síðustu tveimur leikjum fyrir liðið. Hér fagnar hann marki sínu í gær við mikinn fögnuð stuðningsmanna Liverpool.

Átta leikir voru í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í gær. Á Anfield Road í Liverpool tóku heimamenn á móti Tottenham og sigruðu með þremur mörkum gegn engu. Mark Gonzalez, Dirk Kuyt og John Arne Riise skoruðu mörkin en þau komu öll í síðari hálfleik.

„Eftir fyrsta markið náðum við tökum á leiknum og það var lykillinn að þessum sigri. Þetta var ekki alveg að ganga hjá okkur í fyrri hálfleik en við fundum taktinn í síðari hálfleik,“ sagði Rafael Benitez, framkvæmdastjóri Liverpool.

„Við áttum meira skilið úr þessum leik en þetta snýst um að nýta færin og við gerðum það ekki. Í heildina er ég ánægður með leik okkar, þá sérstaklega miðjumennina, en við megum ekki hengja haus yfir þessu,“ sagði Martin Jol, framkvæmdastjóri Tottenham.

Arsenal vann sinn fyrsta heimaleik á leiktíðinni þegar liðið sigraði Sheffield United, 3-0. William Gallas opnaði markareikning sinn hjá Arsenal þegar hann skoraði fyrsta mark leiksins á 65. mínútu. Í kjölfarið fylgdu svo tvö mörk, fyrst kom sjálfsmark frá Paul Jagielka og þar á eftir mark frá Thierry Henry.

„Þetta er mikill léttir fyrir okkur. Í hálfleik vorum við ákveðnir að halda áfram að spila vel og halda ró okkar og við settum þá undir mikla pressu með markinu frá Gallas. Ég hafði alltaf á tilfinningunni að markið myndi koma,“ sagði Arsene Wenger, stjóri Arsenal.

Chelsea gerði góða ferð til nágranna sinna í Fulham og fór með 2-0 sigur af hólmi. Með sigrinum endurheimti liðið toppsæti deildarinnar að minnsta kosti fram yfir helgi en Portsmouth getur náð því aftur með sigri á Bolton á mánudaginn.

Frank Lampard hefur mátt sæta töluverðri gagnrýni upp á síðkastið fyrir sína frammistöðu en í gær svaraði hann þeirri gagnrýni með tveimur mörkum. Fyrra markið skoraði Lampard úr vítaspyrnu á 73. mínútu og sjö mínútum síðar bætti hann öðru marki við. Heiðar Helguson lék síðasta stundarfjórðunginn fyrir Fulham.

Aston Villa lagði Charlton, 2-0, á heimavelli en Aston Villa er ennþá taplaust á þessari leiktíð. Hermann Hreiðarsson sneri aftur í lið Charlton eftir að hafa tekið út leikbann og lék allan leikinn.

Manchester City sigraði West Ham á heimavelli, 2-0, þar sem Georgios Samaras skoraði bæði mörkin. West Ham hefur ekki enn unnið leik eftir að Argentínumennirnir Tevez og Mascherano gengu til liðs við félagið.

Middlesbrough byrjar tímabilið afleitlega en í gær tapaði liðið á heimavelli fyrir Blackburn, 1-0, þar sem Shabani Nonda skoraði sigurmarkið í fyrri hálfleik.

Wigan náði ekki að sigra nýliðana í Watford á heimavelli en lokatölur urðu 1-1. Watford er enn að leita að sínum fyrsta sigri í deildinni en liðið hefur gert þrjú jafntefli og tapað þremur leikjum til þessa.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×