Innlent

Ekki rætt í utanríkismálanefnd

Steingrímur J. Sigfússon. Segir mistök að ræða málið ekki í utanríkismálanefnd.
Steingrímur J. Sigfússon. Segir mistök að ræða málið ekki í utanríkismálanefnd.

Utanríkismálanefnd Alþingis fjallaði ekki um samkomulag um skiptingu landgrunns í Síldarsmugunni milli Íslands, Danmerkur, Færeyja og Noregs, sem undirritað var á miðvikudag, að sögn Steingríms J. Sigfússonar, fulltrúa Vinstri grænna í nefndinni.

„Það stendur í lögum að það eigi að hafa samráð við utanríkismálanefnd um öll meiriháttar utanríkismál. Og það eru fá mál stærri en það að ganga frá meiriháttar samningi sem útkljáir réttindamál og tengist lögsögu landsins um aldur og ævi.“

Steingrímur segist ekki geta útilokað að einhvern tímann hafi verið farið yfir samningsmarkmiðin í nefndinni. „En það á bara ekki að skrifa undir stóra réttindasamninga af þessu tagi áður en farið er yfir málið í utanríkismálanefnd.“ Steingrímur vísar í að það hafi verið venja hingað til eins og þegar gengið var frá miðlínunni milli Íslands og Grænlands annars vegar og Færeyja hins vegar. Því hafi verið um mistök að ræða í þessu tilviki.

Steingrímur hyggst spyrjast fyrir um málið á fundi nefndarinnar í næstu viku. Ekki náðist í Halldór Blöndal, formann utan­ríkismálanefndar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×