Viðskipti erlent

Volvo í útrás í Austurlöndum

Volvo ætlar að auka við hlut sinn í vöruflutningabílaframleiðandanum Nissan Diesel Motors og stækka markað sinn í Asíu á næstu árum.
Volvo ætlar að auka við hlut sinn í vöruflutningabílaframleiðandanum Nissan Diesel Motors og stækka markað sinn í Asíu á næstu árum.

Sænski vöruflutningabílaframleiðandinn Volvo greindi frá því á mánudag að fyrirtækið hefði keypt 6 prósenta hlut japanska bílaframleiðandans Nissan í vöruflutningaarmi fyrirtækisins, Nissan Diesel Motor. Kaupvirðið nemur 500 milljónum sænskra króna eða rúmum 4,8 milljörðum íslenskra króna.

Volvo á fyrir 13 prósent hlutafjár í Nissan Diesel Motor en hefur hug á að verja sem nemur 4 milljörðum sænskra króna eða ríflega 38 milljörðum íslenskra króna til að auka hlutinn í 46,5 prósent á næstu átta árum.

Volvo er næststærsti framleiðandi á vöruflutningabílum í heiminum á eftir DaimlerChrysler og var haft eftir Carlos Ghosn, forstjóra Nissan, að fyrirtækinu hefði litist best á Volvo sem kaupanda. Með þessu hefur Nissan losað um öll fjárhagstengsl við trukkaframleiðandann.

Volvo hefur verið undir þrýstingi að hækka arðgreiðslur til hluthafa en stjórn félagsins vill fremur ljúka við yfirtökum sem eru á áætlunum félagsins áður en arðgreiðslur verða hækkaðar.

Volvo hóf kaup á bréfum í Nissan Diesel Motor í mars á þessu ári og er stærsti hluthafinn í fyrirtækinu. Með kaupunum er horft til þess að auka markaðshlutdeild fyrirtækisins í Asíu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×