Fótbolti

Ancelotti hefur miklar áhyggjur

Carlo Ancelotti
Carlo Ancelotti NordicPhotos/GettyImages

Carlo Ancelotti, þjálfari AC Milan, segist hafa miklar áhyggjur af slöku gegni liðs síns á leiktíðinni. Þessi ummæli lét hann falla eftir að Milan tapaði 1-0 fyrir AEK frá Aþenu í Meistaradeildinni í gær. Milan hefur þegar tryggt sér sæti í 16-liða úrslitunum, en það dregur ekki úr áhyggjum þjálfarans.

"Við erum að vísu búnir að tryggja okkur áfram í keppninni, en ég hef áhyggjur af leik liðsins. Við sköpuðum okkur góð færi í fyrri hálfleik gegn AEK en náðum ekki að nýta þau og höfðum heppnina alls ekki með okkur," sagði Ancelotti.

Milan hefur ekki verið sannfærandi í deildarkeppninni heima fyrir heldur, en þar er liðið 22 stigum á eftir grönnum sínum í Inter sem eru á toppnum. Ancelotti segist ekki vera á þeim buxunum að leggja árar í bát þó illa gangi í augnablikinu. "Ég vil halda áfram að þjálfa Milan næstu 10 árin," sagði Ancelotti, sem þegar hefur verið 6 ár við stjórnvölinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×