Ben Bradshaw, sjávarútvegsráðherra Bretlands ítrekaði í morgun andstöðu Breta við atvinnuhvalveiðar Íslendinga og sagði engin rök fyrir ákvörðun Íslendinga. Hann og Sverrir Haukur Gunnlaugsson, sendiherra Íslands í Bretlandi, funduð í morgun um málið að ósk Bradshaw.
Bradshaw sagði hvalveiðar Íslendingar sorglegar og ekki til þess fallnar að laða að ferðamenn til Íslands. Hann bað sendiherrann jafnframt á fundinum um að íhuga vel þann skaða sem hvalveiðar í atvinnuskyni hafi á ímynd Íslendinga. Hann sagði sjónvarpsmyndir af hvalveiðunum sýna villimannslega hegðun.
Sverrir Haukur segir að farið hafi verið yfir helstu þætti málsins á fundinum og hann hafi útskýrt rök Íslendinga fyrir veiðunum. Margt beri á milli en Bretar horfi meira siðferðislegu rökin gegn veiðunum en Íslendingar á hvalveiðarnar sem nýtingu á auðlind út frá efnahagslegum rökum. Sverrir Haukur segir fundinn hafa tekið um hálftíma en ekkert hafi komið fram á honum um hvort Bretar hyggi á aðgerðir gegn hvalveiðum Íslendinga.
Sendiráði Íslands í London hafa borist á milli sex og sjö hundrað tölvupóstar á einni viku vegna hvalveiðanna. Þó hefur dregið úr umræðunni í bresku blöðum undanfarna daga og segir Sverrir Haukur aðeins eitt lesendabréf hafa birst í gær, þar sem rætt var um hvalveiðarnar.