Innlent

ASÍ: Hagkerfið nær mjúkri lendingu

Grétar Þorsteinsson, forseti ASÍ, á ársfundi sambandsins.
Grétar Þorsteinsson, forseti ASÍ, á ársfundi sambandsins. MYND/Valgarður Gíslason

Samkvæmt hagspá Hagdeildar ASÍ fyrir næstu tvo ár er gert ráð fyrir að við lok núverandi stóriðjuframkvæmda nái hagkerfið mjúkri lendingu sem feli í sér að ekki verði harkalegur samdráttur þó verulega hægi á. Í frétt á vefsíðu ASÍ segir að aðlögunin að jafnvægi verði þó alls ekki sársaukalaus því kaupmáttur margra dragist saman og gjaldþrotum fjölgi. Á næsta ári verði hagvöxtur lítill og atvinnuleysi muni aukast. Þá muni gengið veikjast, stýrivextir lækka samhliða lækkandi verðbólgu og draga úr viðskiptahallanum.

Spáin gerir ráð fyrir að hagkerfið verði fljótt að jafna sig. Strax á árinu 2008 verður hagvöxtur ágætur, verðbólga hófleg, stýrivextir lægri og gengið stöðugra. Samkvæmt spánni nær hagkerfið jafnvægi á árinu 2008 eftir mikið ójafnvægi liðinna ára.

Hagdeildin hefur einnig skoðað hvaða áhrif það hefði á hagkerfið að hefja frekari stóriðjuframkvæmdir í beinu framhaldi af núverandi framkvæmdum. Niðurstaðan er sú að fái hagkerfið ekki að jafna sig áður en ráðist verði í nýjar framkvæmdir kalli það á áframhaldandi ójafnvægi næsta áratuginn. Því fylgir mikil verðbólga, háir vextir og miklar gengissveiflur. Við slíkar aðstæður þrengi mjög að launafólki, sprotafyrirtækjum og fyrirtækjum í útflutnings- og samkeppnisgreinunum.

 

Hagspá Hagdeildar ASÍ




Fleiri fréttir

Sjá meira


×