Innlent

Boða þögula hópstöðu á Lækjartorgi

Anna Kristine Magnúsdóttir og Kristín Ingvadóttir afhenda Bjarna Benediktssyni áskorunina.
Anna Kristine Magnúsdóttir og Kristín Ingvadóttir afhenda Bjarna Benediktssyni áskorunina. MYND/rósa

Anna Kristine Magnúsdóttir og Kristín Ingvadóttir afhentu í vikunni Bjarna Benediktssyni, formanni allsherjarnefndar Alþingis, áskorun um að setja í nefndarálit sitt hvatningu til dómstóla landsins um að nýta þann refsiramma sem á að gilda í nauðgunarmálum.

Allsherjarnefnd hefur til umfjöllunar frumvarp dómsmálaráðherra um breytingu á kynferðisafbrotakafla almennra hegningarlaga. Í þessu frumvarpi eru lagðar til nokkrar breytingar sem varða nauðgun. Refsiramminn fyrir nauðgun er frá einu ári upp í sextán ára fangelsi. Dómstólar landsins nýta sér einungis lítið brot af þessum refsiramma, að því er kemur fram í áskoruninni.

„Við vorum boðaðar inn á fund allsherjarnefndar og beðnar um að ávarpa nefndina. Við erum mjög þakklátar formanni allsherjarnefndar fyrir að taka okkur inn á þennan fund því að við áttum alls ekki von á því. Þetta var mjög virðingarvert hjá honum að bregðast svona skjótt við,“ segir Anna Kristine.

Á morgun verður þögul hópstaða fyrir framan Héraðsdóm Reykjavíkur á Lækjartorgi, sem og héraðsdómstólana á Akureyri, Ísafirði, Selfossi og Egilsstöðum og hefst hún klukkan fjögur síðdegis.

Tilgangurinn er að lýsa yfir áhyggjum af dómum, sem margir telja langt innan leyfilegs refsiramma og hvetja dómara landsins til að nýta refsiramma laganna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×