Innlent

Sjö ára fangelsi fyrir smygl

Tveir Litháar á fertugsaldri, Šarunas Budvytis og Virunas Kavalciukas, voru í gær dæmdir í Héraðsdómi Reykjavíkur í sjö ára fangelsi fyrir að reyna að smygla 11,9 kílóum af amfetamíni til landsins í bíl, sem þeir fluttu hingað með ferjunni Norrænu í sumar.

Mennirnir komu með Norrænu til Seyðisfjarðar 6. júlí. Við tollskoðun ferjunnar færðu mennirnir VW Passat skutbíl með bresku skráningarnúmeri að grænu hliði, en þeir vissu ekki að hún, ásamt skráðum farþegum sem með henni kæmu, hefði verið valin í úrtak fyrir tollskoðun. Í ljós kom að Virunas var ekki á farþegalista heldur landi hans, Arvydas Kepalas, sem ekki var með í för, en hann var skráður eigandi bifreiðarinnar samkvæmt breskum heimildarskjölum. Við skoðun bifreiðarinnar fundust fjögur ilmspjöld við aftursæti og í farangursgeymslu. Við nánari leit fundust átta 1,5 lítra plastflöskur, fylltar með hvítu dufti, sem komið hafði verið vandlega fyrir í eldsneytistanki. Við efnarannsókn reyndist vera um afar sterkt amfetamín að ræða. Hefði verið hægt að drýgja það og fá úr því um eða yfir 30 kíló af efni með ríflega 20 prósent styrkleika, til söludreifingar.

Mönnunum, sem báðir hafa hlotið refsidóma í öðrum ríkjum, var jafnframt gert að greiða samanlagt eina og hálfa milljón í málsvarnarlaun og sakarkostnað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×