Innlent

Kópavogur kaupir 863 hektara land

Uppbygging á Vatnsendajörðinni mun halda áfram.
Uppbygging á Vatnsendajörðinni mun halda áfram. MYND/vilhelm

„Þetta er framtíðarbyggingarland Kópavogs til margra ára," segir Ómar Stefánsson, formaður bæjarráðs Kópavogs.

Bæjaryfirvöld í Kópavogi ætla að leita heimildar fyrir eignarnámi á 863 hekturum af Vatnsendajörðinni.

Drög að samkomulagi um viðskiptin milli bæjarins og eiganda óðalsjarðarinnar Vatnsenda, Þorsteins Hjaltested, liggja fyrir en þar sem kvaðir heimila ekki að jörðin sé seld er eignarnámsleiðin farin. Þessi aðferð var einnig notuð þegar Kópavogsbær eignaðist aðra hluta jarðarinnar í áföngum. Samningsupphæðin er trúnaðarmál að svo stöddu en hún mun hlaupa á milljörðum króna. Kaupverðið verður að hluta greitt með peningum og að hluta með byggingarlóðum sem koma í hlut jarðeigandans.

Í tillögu sem lá fyrir bæjarráði Kópavogs í gær sagði að taka ætti eignarnámi tvo reiti sem væru annars vegar 162 hektarar og hins vegar 111 hektarar. Að auki svokölluð upplönd Vatnsendajarðarinnar, samtals 590 hektara ofan Heiðmerkur.

„Eignarnám þetta er nauðsynlegt vegna framþróunar sveitarfélagsins," segir í tillögunni sem bæjarráð vísaði í gær til bæjarstjórnar.

Eftir viðskiptin mun nánast öll Vatnsendajörðin vera komin í eigu Kópavogs. Að sögn Ómars Stefánssonar verður aðeins lítill „kragi" við Elliðaárvatn áfram undir Vatnsendajörðinni. Eigendur húsa þar verða áfram um sinn leiguliðar hjá Þorsteini Hjaltested. „En það er bara tímaspursmál hvenær bærinn eignast þennan kraga líka," segir Ómar. „Þetta er hluti af því að við erum að taka yfir öll þau lönd sem eru innan bæjarmarkanna svo bærinn hafi eignarhald á því landi sem hann skipuleggur."

Hafsteinn Karlsson, bæjarráðsfulltrúi Samfylkingarinnar, segist ekki hafa lýst afstöðu til væntanlegra viðskipta á bæjarráðsfundinum. „Við eigum eftir að reikna þetta út. Kannski er þetta mjög hagstæður samningur fyrir Kópavog," segir Hafsteinn.

Þorsteinn Hjaltested segir að nýju svæðin verði skipulögð á sama hátt og fyrri svæði. „Það eina sem ég veit er að það verður tekið meira tillit til útivistar," segir Þorsteinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×