Innlent

Sekt fyrir vanrækslu á hrossum

Strangar kröfur eru um hrossahald yfir vetrartímann.
Strangar kröfur eru um hrossahald yfir vetrartímann.

Hrosseigandi á Suðurlandi hefur verið dæmdur í Héraðsdómi Suðurlands til að greiða 700 þúsund krónur í sekt eða sæta ella fangelsi í 34 daga vegna grófrar vanrækslu á aðbúnaði, umhirðu og fóðrun á ellefu hrossum, sem hann var umráðamaður yfir og stóðu inni í hesthúsi í febrúar. Fjórum hrossum úr hópnum var lógað.

Maðurinn hafði fjarlægt sjö af hrossunum ellefu úr hesthúsinu og neitaði síðan ítrekað að greina héraðsdýralækni og lögreglu frá því hvar þau væru niðurkomin, eftir að ákvörðun héraðsdýralæknis og yfirdýralæknis um aflífun hrossanna lá fyrir. Hinum fjórum, sem til náðist, var lógað eins og fyrr segir.

Upphaf málsins má rekja allt aftur til ársins 2004 þegar búfjáreftirlitsmaður gerði athugasemdir um aðbúnað búfjár á umræddri jörð, sem hann taldi ekki vera samkvæmt lögum og reglum um búfjárhald.

Maðurinn hefur búið á jörðinni ásamt fjölskyldu sinni og rekið umfangsmikla hrossarækt, bæði til töku á blóði úr fylfullum merum, til útflutnings og svo til ræktunar. Honum var jafnframt gert að greiða málskostnað upp á tæplega 600 þúsund krónur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×