Innlent

Seðlabankanum eignuð lóðin

Fríkirkjuvegur 11 Seðlabankinn skráður eigandi lóðarinnar sem bankinn seldi fyrir um 35 árum.
Fríkirkjuvegur 11 Seðlabankinn skráður eigandi lóðarinnar sem bankinn seldi fyrir um 35 árum.

„Segir Fasteignamatið að við eigum lóðina?“ segir Þórður Gautason hjá Seðlabanka Íslands sem ranglega hefur verið skráður eigandi að lóðinni undir húsinu á Fríkirkjuvegi 11 er Reykjavíkurborg ætlar nú að selja.

Að sögn Þórðar átti Seðlabankinn á sínum tíma lóðirnar á Fríkirkjuvegi 11 og 13 þar sem nú er svonefndur Hallargarður. Þar hafi átt að reisa hús yfir bankann og hugmyndasamkeppni verið haldin á sjöunda áratugnum en lóðin hafi verið seld í hendur Reykjavíkurborgar með makaskiptum í kringum árið 1970.

Þó að lóðin á Fríkirkjuvegi hafi farið úr eigu Seðlabankans fyrir um 35 árum var bankinn þar til í gær skráður fyrir henni hjá Fasteignamati ríkisins.

Fyrir 27 árum árum var reyndar hnykkt á því af hálfu Seðlabankans að lóðin væri ekki rétt skráð. „Það kom úrskurður frá Fasteignamatinu en hann hefur greinilega ekki náð inn,“ segir Þórður Gautason.

Fasteignamat ríkisins færði í gær skráningu lóðarinnar í rétt horf eftir að Seðlabankinn setti sig í samband við stofnunina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×