Innlent

Spítalinn fær aukið fjármagn

Landspítalinn Aukið fjármagn til uppbyggingar BUGL og ýmissa rekstrarþátta.
Landspítalinn Aukið fjármagn til uppbyggingar BUGL og ýmissa rekstrarþátta.

Stjórnvöld hafa ákveðið að hækka framlög til Landspítala - háskólasjúkrahúss um 189 milljónir, að sögn Sivjar Friðleifsdóttur heilbrigðisráðherra. Þar af fara 124,5 milljónir í rekstur spítalans og 65 milljónum verður varið til nýbyggingar barna- og unglingageðdeildar LSH.

Rekstrarspá sem stjórnarnefnd spítalans lét vinna gerir ráð fyrir að halli hans verði allt að tólf hundruð milljónir króna í árslok, eins og Fréttablaðið hefur greint frá. Ráðherra segir stjórnvöld ekki með neinar áætlanir uppi um flutning á verkefnum frá sjúkrahúsinu, eins og Ásta Möller, varaformaður heilbrigðisnefndar Alþingis, setti fram í samtali við blaðið. Hins vegar sé í stöðugri athugun hvaða verkefni sé rétt að hafa innan veggja þess, og hver ekki.

„Landspítali - háskólasjúkrahús er flaggskip í okkar sjúkrahúsþjónustu. Þar eru erfiðustu og viðkvæmustu sjúkdómarnir meðhöndlaðir og þetta er okkar sérgreinasjúkrahús, sem veltir 31,5 milljarði á ári,“ segir Siv. „Við erum nú með til athugunar ásamt fjármálaráðuneytinu halla sjúkrahússins. Þá eru ráðuneytin að líta til fjárlaga næsta árs.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×