Innlent

Stjórnskipuleg áhætta að skerða eftirlaun ráðamanna

Helgi Hjörvar
Lögfræðiálit fyrir forsætisráðherra um eftirlaunalög fyrir alþingismenn má heimfæra upp á skerðingu til öryrkja.
Helgi Hjörvar Lögfræðiálit fyrir forsætisráðherra um eftirlaunalög fyrir alþingismenn má heimfæra upp á skerðingu til öryrkja. MYND/Vilhelm

Lögmennirnir Karl Axelsson og Lilja Jónasdóttir ráðlögðu Halldóri Ásgrímssyni, þáverandi forsætisráðherra, að taka ekki þá „stjórnskipulegu áhættu“ að skerða eftirlaun æðstu manna sem voru byrjaðir að þiggja eftirlaun samkvæmt umdeildum lögum frá árinu 2003.

Álit Karls og Lilju er unnið að beiðni forsætisráðherra í apríl 2005:

„Undirrituð telja ekki útilokað að skerða megi slík réttindi, sé það gert með málefnalegum og almennum hætti. Að öllu virtu, með tilliti til þess hve fáir einstaklingar eiga í hlut og að gættum meðalhófssjónarmiðum, telja undirrituð þó að ekki sé efni til þess að taka þá stjórnskipulegu áhættu sem felst í frekari takmörkun, skerðingu eða niðurfellingu virkra eftirlaunaréttinda,“ segir meðal annars í álitinu sem aldrei var birt.

Helgi Hjörvar, alþingismaður Samfylkingar, horfir á niðurstöður lögfræðiálitsins í samhengi við skerðingu lífeyrissjóða á greiðslum til öryrkja sem aflað hafa tekna umfram tiltekin viðmið.

„Ríkisstjórnin hefur ekki verið tilbúin til þess að setja lög um að afturkalla umdeildustu kaflana í eftirlaunalögunum fyrir alþingismenn og ráðherra vegna eignarréttarákvæða stjórnarskrárinnar,“ segir Helgi.

Að sögn Helga segir í álitinu að mjög þröngur réttur sé til að skerða lífeyri sem menn séu byrjaðir að taka. Það eigi til dæmis við um sendiherra sem séu nýbyrjaðir að fá þessi eftirlaun:

„Öryrkjarnir hafa treyst á sínar greiðslur í áratugi. Það segir líka í álitinu að það sé algerlega óheimilt að skerða nema með skýrum lagaheimildum. Þessar eftiráreglur, sem beitt er á öryrkjana, eru aðeins gerðar með breytingum á samþykktum lífeyrissjóðanna. Það er í meira lagi vafasamt að fjármálaráðherra skuli hafa staðfest þær.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×