Innlent

Segir ráðherrana hafa viljað kanna tengsl Svavars og STASI

Jón Baldvin Hannibalsson, fyrrverandi utanríkisráðherra, og Steingrímur Hermannsson, fyrrverandi forsætisráðherra, kannast ekki við að hafa látið kanna það sérstaklega, hvort Svavar Gestsson hafi starfað fyrir austur-þýsku leyniþjónustuna STASI. Svavar var menntamálaráðherra í ríkisstjórn Steingríms Hermanns­sonar frá 1989 til 1991.

Þór Whitehead sagnfræði­prófessor greinir frá því í Fréttablaðinu í dag að Steingrímur og Jón Baldvin hafi viljað vita „hvort Svavar hafi verið í hópi erindreka STASI“, eins og segir orðrétt í grein Þórs og vitnar hann þar til frásagnar Róberts Trausta Árnasonar, sem var varafastafulltrúi Íslands hjá NATO í Brussel í lok kalda stríðsins.

Jón Baldvin segist hafa beðið Róbert Trausta um að athuga tengsl STASI við íslenska þegna og Ísland, líkt og forsvarsmenn annarra þjóða gerðu á leiðtogafundi NATO í Brussel um fimm vikum eftir að Berlínarmúrinn féll, í nóvember 1989. „Ef ég hefði ekki beðið Róbert Trausta um að athuga þetta, þá hefði ég verið að bregðast skyldum mínum. Það var mikilvægt fyrir mig að vita að Svavar væri saklaus eins og aðrir íslenskir þegnar en ég óskaði ekki eftir því sérstaklega að tengsl Svavars við STASI væru skoðuð. Síðan fékk ég þær upplýsingar, frá Róberti Trausta, að STASI hefði ekki haft neina starfsemi er tengdist íslenskum þegnum eða Íslandi yfir höfuð, og það var ákveðinn léttir.“

Steingrímur segist ekki vita til þess að tengsl Svavars við STASI hafi verið könnuð. „Það var vitanlega vilji hjá öllum á leiðtogafundi NATO að skoða starfsemi STASI og hvert hún hefði teygt anga sína. Tengsl STASI við Ísland reyndust engin vera og það lágu engar óskir fyrir um að kanna tengsl við ákveðna einstaklinga.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×