Viðskipti erlent

Bankar sameinast

tveir seðlabankastjórar Mario Draghi, seðlabankastjóri Ítalíu, ásamt Jean-Claude Trichet, bankastjóra evrópska seðlabankans.
tveir seðlabankastjórar Mario Draghi, seðlabankastjóri Ítalíu, ásamt Jean-Claude Trichet, bankastjóra evrópska seðlabankans. MYND/AFP

Ítölsku bankarnir Banco Populare Italiana (BPI) og Banco Populare di Verona e Novara hafa ákveðið að sameinast. Með þessu verður til þriðji stærsti banki á Ítalíu en markaðsvirði hans er um 15 milljarðar evra, jafnvirði tæplega 1.300 milljarða íslenskra króna.

Að sögn breska ríkisútvarpsins, BBC, hefur BPI leitað eftir því að sameinast öðrum banka síðan samrunaferli bankans við Banco Antonveneta rann út í sandinn á síðasta ári.

BPI varð fyrir skakkaföllum í kjölfarið en þá komst upp að stjórn bankans hefði ásamt ítalska seðlabankanum reynt að hindra samkeppni frá hollenska bankanum ABN Amro í Banco Antonveneta og leiddi það til þess að bankastjórar BPI og ítalska seðlabankans urðu að segja af sér.

Mario Draghi, seðlabankastjóri Ítalíu, er sagður fylgjandi samruna fjármálastofnana á Ítalíu og hefur stutt samrunaferlið í hvítvetna.

Í sumar varð til stærsti banki Ítalíu með sameiningu Banca Intesa, annars stærsta banka Ítalíu, og Sanpaolo-IMI, þriðja stærsta bankans. Hluthafar eiga þó enn eftir að samþykkja samrunann en líklegt þykir að af því verði í desember.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×