Lífið

Good Morning America beint frá Jökulsárlóni

kynnar good morning america
Þær Robin Roberts og Diane Sawyer eru nú aðalkynnar, en Charles Gibson og Tony Perkins hafa snúið sér að öðru.
kynnar good morning america Þær Robin Roberts og Diane Sawyer eru nú aðalkynnar, en Charles Gibson og Tony Perkins hafa snúið sér að öðru. MYND/Getty

Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins dveljast útsendarar frá hinum feikivinsæla morgunþætti ABC-sjónvarpsstöðvarinnar, Good Morning America, hér á landi þessa dagana í því skyni að undirbúa beina útsendingu frá Jökulsárlóni sem fara mun fram í nóvember.

Útsendingin frá Íslandi verður liður í vikulöngu ferðalagi þáttarins, en hann mun verða sendur út frá sex öðrum löndum í sömu viku. Á Íslandi ætla þáttastjórnendur að fjalla um gróðurhúsaáhrifin og hnattræna hitun.

Tökuliðið sem statt er hér um þessar mundir sér um rannsóknarvinnu fyrir þáttinn, en þeirra á meðal er Morgan Zalkin sem hefur yfirumsjón með framleiðslu sérstakra innslaga fyrir Good Morning America. Það verður hins vegar væntanlega Sam Champion, veðurfræðingur þáttarins, sem verður aðalandlitið í beinu útsendingunni í nóvember.

Heimildir Fréttablaðsins herma að tökuliðið frá Good Morning America hafi varið miðvikudeginum í viðræður við íslenska vísindamenn. Um kvöldið skelltu þau sér hins vegar í draugagöngu um miðbæinn, en þær virðast njóta mikilla vinsælda. Áhugi Jónasar Freydal Þorsteinssonar, umsjónarmanns göngunnar, á umhverfismálum virtist vekja athygli tökuliðsins, en í göngunum les hann meðal annars ákall frá álfum þess efnis að landið sé varðveitt. Tökuliðið ku þó hafa verið á höttunum eftir skemmtilegu efni til að krydda útsendinguna með, og alls óvíst hvort efni úr draugagöngunni yrði notað.

Good Morning America hefur áður verið með beina útsendingu frá Íslandi, en fyrir níu árum var þátturinn sendur út frá Austurvelli og Bláa lóninu. Um fimm milljónir manna horfa á þáttinn á degi hverjum og er því um umtalsverða landkynningu að ræða. Hvort hún verður góð eða slæm er þó enn óljóst.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.