Innlent

Signý fram gegn Ingibjörgu

Ingibjörg R. Guðmundsdóttir „Þetta er auðvitað það sem maður býr við,“ segir Ingibjörg R. Guðmundsdóttir, varaforseti ASÍ.
Ingibjörg R. Guðmundsdóttir „Þetta er auðvitað það sem maður býr við,“ segir Ingibjörg R. Guðmundsdóttir, varaforseti ASÍ.

Miklar líkur eru á því að átök verði um varaformennskuna í Alþýðusambandi Íslands á ársfundi 26.–27. október. Signý Jóhannesdóttir, formaður Vöku á Siglufirði, hefur lýst yfir framboði gegn núverandi varaforseta, Ingibjörgu R. Guðmundsdóttur.

„Starfsgreinasambandið er með ríflega fjörutíu prósent ASÍ og telur eðlilegt að fulltrúi úr Starfsgreinasambandinu skipi annan hvorn forsetastólinn,“ segir Signý sem með framboði sínu bregst við áskorun félaga sinna.

Vaka á aðild að fleiri landssamböndum innan ASÍ en Starfsgreinasambandinu. Þannig situr Signý í sambandsstjórn Sjómannasambandsins og svo á Vaka aðild að Landssambandi íslenskra verslunarmanna og Samiðn.

„Þetta er auðvitað það sem maður býr við að það vilja fleiri og maður tekur því. Við sjáum bara til þegar til fundarins kemur,“ segir Ingibjörg R. Guðmundsdóttir, varaforseti ASÍ.

Framboð Signýjar er háð því að lagabreyting nái fram á ársfundinum þannig að ársfundum verði hætt og í staðinn verði haldin þing á tveggja ára fresti. Ef lagabreytingin nær fram að ganga þá koma öll embætti til endurkjörs nú en annars verður Ingibjörg varaforseti í eitt ár í viðbót.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×