Innlent

Kaup á vændi er þjóðarskömm

FJALLAÐI UM KÆRLEIKANN Biskup fjallaði um kærleiksþjónustu safnaða.
FJALLAÐI UM KÆRLEIKANN Biskup fjallaði um kærleiksþjónustu safnaða. MYND/Pjetur

Hinn hnattvæddi klámiðnaður er staðreynd hér á Íslandi, sagði biskup Íslands, herra Karl Sigurbjörnsson, í ávarpi sínu við upphaf kirkjuþings í gærmorgun. Biskup sagði ennfremur að mansal teygði anga sína hingað og að vændi væri mun útbreiddara en margan grunaði.

Kaup á vændi er alltaf ofbeldi og óhæfa, kvenfyrirlitning og niðurlæging, hélt biskup áfram. Og að ímynda sér að það skuli viðgangast á Íslandi að siðlausir sóðakarlar skuli kaupa ungar stúlkur frá fátækum löndum og halda þeim hér sem þrælum, eins og vitnast hefur, það er þjóðarskömm.

Biskup lýsti áhyggjum yfir því hvaða áhrif klámvæðing og kynlífsdýrkun kynnu að hafa á hina ungu og ístöðulausu. Biskup gerði einnig umhverfismál að umtalsefni sínu, samstarf kirkju og skóla og aðbúnað barna og vitnaði þar í skýrslu Sameinuðu þjóðanna um ofbeldi gegn börnum.

Þá var líka fjallað um skýrslu kirkjuráðs og kosið til þingstarfa. Var Pétur Kr. Hafstein kjörinn forseti kirkjuþings og tók til máls af því tilefni. Þá flutti Björn Bjarnason, dóms- og kirkjumálaráðherra, erindi. Ráðgert er að þinginu ljúki á fimmtudag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×