Innlent

Linsuvökvi veldur blindu

Mest seldi linsuvökvi á Íslandi getur, við ákveðnar aðstæður, valdið augnsjúkdómum sem leiða til blindu. Þessar aðstæður eru meðal annars hiti og raki. Landlæknir kannar málið.

Bausch und Lomb, framleiðandi Renu Moistureloc-linsuvökvans, hefur tímabundið stöðvað dreifingu á vökvanum eftir að bandarísk yfirvöld greindu frá því að tengsl virtust vera á milli notkunar hans og sveppasýkingar í augum en vitað er um á annað hundrað slíkra tilfella í landinu. Í verstu tilvikunum hefur sýkingin valdið hornhimnubólgu sem aftur hefur leitt af sér tímabundna blindu. Talið er að krossmengun við meðferð snertilinsa og vökvans verði til þess að sveppurinn komist í augun. Hættan á þessu er sérstaklega mikil í heitum og rökum löndum, til dæmis í Singapúr og Malasíu en þar var sala á þessum tiltekna vökva stöðvuð fyrr á þessu ári vegna sýkinga. Enda þótt aðstæður séu aðrar hér á landi hefur landlæknisembættið málið til skoðunar. Enn sem komið er eru engin tilfelli talin hafa komið upp hér á landi. Þótt málið sé í athugun hérlendis og erlendis hefur enn ekki verið sýnt fram á með óyggjandi hætti að notkun Renu-vökvans geti valdið sýkingum og því telur landlæknir ekki ástæðu til hvetja sjóndapra til að hætta noktun hans. Hins vegar hvetur hann linsunotendur til að gæta ítrasta hreinlætis hér eftir sem hingað til.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×