Innlent

Hneisa fyrir allar þjóðirnar

Frá Hvalfirði.
Sjávarútvegsráðherra segir það hneisu að mótmælaskjal 25 þjóða skuli ekki vera byggt á rökum.
Frá Hvalfirði. Sjávarútvegsráðherra segir það hneisu að mótmælaskjal 25 þjóða skuli ekki vera byggt á rökum. MYND/Vilhelm

Einar K. Guðfinnsson sjávarútvegsráðherra spyr sig hvernig geti staðið á því að mótmælaskjal frá 25 þjóðlöndum auk framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, geti verið byggt á jafn miklum rangfærslum og í ljós kom í vikunni.

Í mótmælaskjalinu, sem var afhent utanríkisráðuneytinu á miðvikudag, segir að Íslendingar hafi ákveðið veiðikvóta út frá gögnum sem hvorki hafi verið kynnt, farið yfir né samþykkt af vísindanefnd Alþjóðahvalveiðiráðsins og það grafi undan starfsemi ráðsins. Á sama tíma eru upplýsingar Hafrannsóknastofnunar um mat á stofnstærð og sjálfbæru veiðiþoli birtar á heimasíðu Alþjóðahvalveiðiráðsins og hafa verið viðurkenndar af vísindasviði þess.

Einar segir þetta mjög alvarlegt. „Það er umhugsunarefni að svona margar þjóðir skuli hafa byggt málflutning sinn á tómum rangfærslum. Þetta er hneisa fyrir þessar virðulegu þjóðir að hafa sent frá sér svona skjal.“

Greg Donovan, yfirmaður vísindasviðs Alþjóðahvalveiðiráðsins, staðfestir þetta og sagði í viðtali við Fréttablaðið: „Við höfum skoðað fjölda langreyða við Ísland og stofninn er eitthvað í kringum 25 þúsund dýr. Það sem Íslendingar ætla að veiða hefur engin áhrif á stofninn.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×