Innlent

Sundlaug inni í skáp

„Það er allt að frétta," segir Jón Hallur Stefánsson rithöfundur. „Ég á von á barni hvað úr hverju. Konan er komin á tíma og ætlar að fæða hérna í stofunni. Sundlaugin bíður bara inni í skáp. Þetta verður mitt fimmta barn. En þetta er ekki allt því ég á von á barnabarni líka.

Ég er reyndar ekki í sem bestu formi því læknirinn sagði mér í gær að ég væri með lungnabólgu. Ég hélt ég væri búinn að vera með einhverja pest en var að ná mér. Þá sló mér niður og ég leitaði til læknis sem sagði mér tíðindin. Ég á víst að taka það rólega sem er dálítið úr takti við að það er brjálað að gera og maður berst við tímann.

Ég er að klára jólaplötu sem mig langar til að lauma inn fyrir jól. Þetta er plata með frumsömdum jólalögum. Þarna er sungið um mörg litbrigði jólanna, ekki bara jólasnjóinn og jólasólina heldur líka um jólaþunglyndi og jóladrykkju. Platan heitir Ofan komu af fjöllunum.

Svo er ég að skrifa nýja glæpasögu en sú kemur ekkert á þessu ári."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×