Innlent

Hvalveiðar eru eins og bílasala

Markaður fyrir hvalafurðir er mikið í umræðunni og sitt sýnist hverjum.
Markaður fyrir hvalafurðir er mikið í umræðunni og sitt sýnist hverjum.

Ein virtasta fréttastofa Evrópu, DPA í Þýskalandi, hefur eftir Stefáni Ásmundssyni, skrifstofustjóra sjávarútvegsráðuneytisins, að Íslendingar gætu þurft að endurskoða afstöðu sína til atvinnuhvalveiða ef ekki verður hægt að selja kjötið á erlendum mörkuðum. Stefán segist ekki hafa átt við að stjórnvöld væru að meta hvort eigi að endurmeta leyfi til atvinnuhvalveiða vegna markaðsskorts.

„Það sem ég var að segja var að þetta er atvinnustarfsemi eins og hver önnur og að það er atvinnurekandinn sem heldur utan um markaðsmálin. Auðvitað heldur hann ekki áfram ef hann hefur ekki markaði," segir Stefán. DPA hefur einnig eftir Stefáni í viðtalinu að hvalveiðar séu ekkert ólíkar bílasölu; ef framleiðandi hefur ekki kaupendur að bílunum þá hætti hann framleiðslu.

Einar K. Guðfinnsson sjávarútvegsráðherra segir að stjórnvöld komi ekkert að því að taka ákvörðun um að stöðva veiðarnar á markaðsforsendum. Það verði sjálfhætt ef ekki er rekstrargrundvöllur. „Sá sem annast veiðina ber ábyrgð á sölu afurðanna eins og í öllum öðrum greinum sjávarútvegs. Það segir sig sjálft að ef hvalveiðar verða ekki arðbærar þá verða þær ekki stundaðar frekar en aðrar óarðbærar atvinnugreinar."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×