Innlent

Aukið fé til aldraðra á fjárlögum

Margir tóku til máls á fundinum og ræddu nauðsyn þess að grípa til aðgerða í málefnum aldraðra.
Margir tóku til máls á fundinum og ræddu nauðsyn þess að grípa til aðgerða í málefnum aldraðra. MYND/vilhelm

Aðstandendur og baráttufólk um bættan hag aldraðra munu halda baráttufund laugardaginn 25. nóvember í Háskólabíói. Þar verður skorað á Alþingi og ríkisstjórn að í fjárlögum sem gengið verður frá fyrir áramót verði umtalsvert fjármagn lagt í málaflokk aldraðra. "Við vonumst til að þjóðin mæti og það verði skilaboð til ráðamanna að nú sé mál að linni," sagði Reynir Ingibjartsson, formaður Aðstandendafélags aldraðra, AFA, sem hélt blaðamannafund í gær í félagi við Félag aðstandenda Alzheimersjúklinga og Félag aðstandenda heimilisfólks á Skjóli.

Reynir segir tilefni fundarins nýlega yfirlýsingu heilbrigðisráðherra um að byggja eigi hjúkrunarheimili á næstu fjórum árum. "En þegar skoðað er hvernig á að fjármagna er það ekki fyrr en á fjárlögum 2008 og 2009." Reynir bendir á að kosið verði um þing og ríkisstjórn í millitíðinni og ekki sé forsvaranlegt að leysa þennan vanda með slíkri ávísun inn í framtíðina. "Aðalpunkturinn er sá að ef hugur hefði fylgt máli varðandi fjölgun hefði verið eðlilegra að ráðstöfun fjár hefði verið á næstu fjárlögum."

Á fundinum kom fram að hundruð einstaklinga séu á biðlistum í bráðri þörf eftir hjúkrunarrýmum. Og tæplega eitt þúsund aldraðir búa enn í fjölbýli á hjúkrunar- og dvalarheimilum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×