Innlent

Stefna ótrauð saman í ríkisstjórn

Guðjón A. kristjánsson. Samfylkingin og vinstri grænir hyggja áfram á samstarf með Frjálslynda flokknum og formanni hans.
Guðjón A. kristjánsson. Samfylkingin og vinstri grænir hyggja áfram á samstarf með Frjálslynda flokknum og formanni hans. MYND/GVA

Samkvæmt skoðanakönnun Fréttablaðsins í gær fengju stjórnarandstöðuflokkarnir þrír meirihluta á Alþingi.

Samfylkingin, VG og Frjálslyndi flokkurinn stefna enn að stjórnarsamstarfi eftir næstu alþingiskosningar þrátt fyrir snarpa umræðu um innflytjendur.

„Það er ekki hægt að segja að það hafi orðið stefnubreyting hjá flokknum þótt einstakir menn innan hans tali með hætti sem manni líkar ekki. Það eru auðvitað samþykktir flokksins og yfirlýsingar forystunnar sem gilda,“ segir Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, formaður Samfylkingarinnar, aðspurð hvort stefna Frjálslynda flokksins í innflytjendamálum setji strik í reikninginn.

„Ég tek orð formanns Frjálslynda flokksins gild. Hann segir að stefna síns flokks sé óbreytt og vísar í stefnuskrá flokksins. Ég hef lesið hana og þar sem um þessa hluti er fjallað er ekkert sem veldur mér vandræðum,“ segir Steingrímur J. Sigfússon, formaður vinstri grænna.

Guðjón A. Kristjánsson, formaður frjálslyndra, segir þá ekki hafa sagt annað í þingræðum nú en þeir sögðu í apríl. „Við vorum bara að vara við því að hingað kæmi ofboðslega mikill fjöldi af útlendingum. Það hefur gengið eftir. Og það sem ríkisstjórnin lofaði að gera hefur ekki verið gert."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×