Innlent

Vilja sjá verðmat Landsvirkjunar

BJörn ingi Hrafnsson formaður borgaráðs segir að engin ákvörðun hafi verið tekin um það hvort verðmatið verði lagt fyrir borgarráð.
BJörn ingi Hrafnsson formaður borgaráðs segir að engin ákvörðun hafi verið tekin um það hvort verðmatið verði lagt fyrir borgarráð.

Fyrirspurnir um sölu Reykjavíkurborgar á hlut sínum í Landsvirkjun, sem fulltrúar Samfylkingarinnar í borgarráði lögðu fram á fundi í síðustu viku, voru ekki útræddar á fundi ráðsins í gær.

Fyrirspurnirnar snerust um að borgarstjóri Reykjavíkur, Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, hefði selt hlutinn fyrir "smánarverð" og rökstuddu þeir þá skoðun með því að vísa til verðmats á Landsvirkjun upp á 91,2 milljarða sem gert var í lok árs 2005. Reykjavíkurborg seldi hlutinn miðað við að verðgildi Landsvirkjunar væri 60,5 milljarðar.

Í Fréttablaðinu á laugardaginn sagðist borgarstjóri ekki kannast við 91,2 milljarða verðmatið, meðal annars vegna þess að það hefði aldrei verið lagt fyrir borgarráð.

Á fundinum í gær lögðu fulltrúar Samfylkingarinnar fram ósk um að 60,5 milljarða verðmatið, sem lá til grundvallar samningnum um sölu hlutarins í Landsvirkjun, verði lagt fyrir borgarráð.

Björn Ingi Hrafnsson, formaður borgarráðs, segir að "engin ákvörðun hafi verið tekin" um hvort verðmatið verði lagt fyrir ráðið en segist "reikna með" að fulltrúar Samfylkingarinnar fái svör við þeim spurningum sem þeir hafa lagt fram.

Á laugardaginn verður aukafundur í borgarráði þar sem meðal annars verður fjallað um fyrirspurnir fulltrúa Samfylkingarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×