Innlent

Þriðjungur telur fjölda útlendinga hér vera vandamál

76,5 prósent svarenda telja fjölda útlendinga hér á landi vera eitthvað vandamál samkvæmt nýrri könnun Fréttablaðsins. Þar af segja 32,9 prósent vandamálið vera mikið en 43,6 telja vandamálið vera lítið. 23,6 prósent segja fjölda útlendinga á Íslandi vera ekkert vandamál. 66,5 prósent telja því vandamálið vera lítið eða ekkert.

Lítill munur er á afstöðu fólks eftir búsetu. Jafnmargir segja vandamálið vera mikið, en örlítill munur er á því hvort fólk telur vandamálið vera ekkert eða lítið eftir búsetu. 24,6 prósent svarenda á landsbyggðinni segja vandamálið vera ekkert, á móti 22,9 prósentum íbúa á höfuðborgarsvæðinu. 42,6 prósent svarenda á landsbyggðinni telja að vandamálið sé lítið á móti 44,2 prósentum íbúa höfuðborgarsvæðisins.

Meiri munur er á afstöðu fólks eftir kyni og telja konur frekar að fjöldi útlendinga sé vandamál en karlar. 25,3 prósent karla telja fjölda útlendinga hér á landi ekkert vandamál og eru 21,8 prósent kvenna sama sinnis. 44,1 prósent karla telur fjölda útlendinga lítið vandamál, en 43 prósent kvenna. Þá telja 30,6 prósent karla fjölda útlendinga vera mikið vandamál, en 35,2 prósent kvenna.

Einnig var spurt hvort takmarka eigi frekar veitingu dvalarleyfa og eru 73,1 prósent svarenda því samþykkir en 26,9 prósent eru því andsnúnir.

Nokkuð margir svarendur vildu þó tiltaka að vandamálið fælist ekki í fjöldanum einum og sér, heldur hvernig tekið væri á móti útlendingum af hendi hins opinbera.

Nokkur munur er á afstöðu eftir kyni en minni munur er á afstöðu eftir búsetu.

Fleiri konur eru á því að takmarka eigi frekar veitingu dvalarleyfa en karlar, eða 77,2 prósent kvenna á móti 69,1 prósenti karla. Þá segja 74,8 prósent íbúa landsbyggðarinnar að veitingu dvalarleyfa eigi frekar að takmarka, en 71,9 prósent íbúa höfuðborgarsvæðisins.

Hringt var í 800 kjósendur þriðjudaginn 7. nóvember og skiptust svarendur jafnt eftir kyni og hlutfallslega milli höfuðborgarsvæðis og landsbyggðar.

Spurt var: Er fjöldi útlendinga á Íslandi ekkert, lítið eða mikið vandamál? Svarhlutfall var 91,3 prósent. Einnig var spurt: Þarf að takmarka frekar veitingu dvalarleyfa útlendinga? Svarhlutfall við síðari spurningunni var 88,8 prósent.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×