Innlent

Hvassviðri og hríð röskuðu umferð

Akureyri Það snjóaði hressilega á Akureyri í gær.
Akureyri Það snjóaði hressilega á Akureyri í gær. MYND/Örlygur

„Það er búið að vera stormur og krapahríð í allan dag," sagði Jón Ingólfsson, bóndi og veðurathugunarmaður á Skjaldþingsstöðum, í gærkvöld. Þar mældist langmest úrkoma í gær á landinu, 51 millimetri.

Vonskuveður var víða um land í gær.

Lögreglan á Húsavík sagði að þar hefði snjóað allan daginn og gengið á með hvassviðri. Í gærkvöld var orðið þungfært innanbæjar og ekkert ferðaveður um héraðið og austur í land.

Milli Ólafsfjarðar og Dalvíkur var sömuleiðis hríðarveður og þungfært.

Á Akureyri var kominn talsverður snjór en lögreglan sagði engin stórtíðindi vegna veðurs þar. Illviðri var milli Hofsóss og Siglufjarðar og stórhríð á Þverárfjalli.

Hjá lögreglunni á Blönduósi fengust þær upplýsingar að fólk hefði lítið treyst sér til að aka Langadal vegna gríðarlegs hvassviðris. Vindhviður þar hafi farið um og yfir 40 metra á sekúndu í „baneitruðum" strengjum.

Á Blönduósi var nokkuð um að hlutir fykju til, meðal annars bárujárn. Á Skagaströnd skemmdist bátur í höfninni þegar hann rakst utan í annan.

Á Vesturlandi var sömuleiðis mikið hvassviðri.

Veðurstofan sagði að smám saman drægi úr vindi þegar liði á daginn í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×