Innlent

Níu prósenta hækkun milli ára

Jólagjöfin á Íslandi árið 2006 er ávaxta- og grænmetispressa, en varan er talin njóta vinsælda meðal allra aldurshópa í landinu. Þetta er niðurstaða fjögurra manna dómnefndar, sem skipuð er sérfræðingum á sviði verslunar og þjónustu, sem greint var frá á fundi í húsakynnum Samtaka verslunar og þjónustu í gær.

Á fundinum kynnti Emil B. Karlsson, forstöðumaður Rannsóknarseturs verslunarinnar, upplýsingar um jólaverslunina 2006.

Emil segir að landsmenn muni eyða níu prósent meira fé í jólagjafir í nóvember og desember en í fyrra.

„Jólaverslunin er eitt af sameiginlegum áhugamálum Íslendinga og þeim finnst gaman að tala um hana. En hún er líka mikilvæg fyrir verslunarfólk því um tuttugu prósent af smásöluversluninni á landinu fer fram fyrir jólin,“ segir Emil.

Á fundinum vitnaði Emil til rannsóknar um að hver Íslendingur ætli að eyða 26 til 50 þúsund krónum í jólagjafir í ár. Í rannsókninni kom einnig fram að um og yfir 65 prósent landsmanna geri jólainnkaupin á Íslandi og byrji ekki á þeim fyrr en í desember.

Samkvæmt þessari spá munu Íslendingar drekka mikið af ávaxta- og grænmetissafa árið 2007, og miðað við áætlaða eyðsluna munu fáir fara í jólaköttinn alræmda.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×