Innlent

Frjálslyndir tóku ekki þátt

Til að koma í veg fyrir myndun félagslega einsleitra borgarhverfa á Reykjavíkurborg að tryggja að hlutfall leiguíbúða á nýbyggingarsvæðum verði minnst 20 prósent og hlutfall félagslegra íbúða ekki hærra en 10 prósent. Borgin á að auka íslenskukennslu í grunnskólum og hvetja innflytjendur til að sækja um störf hjá borginni. Einnig á að reka annað Alþjóðahús í austurhluta borgarinnar.

Þessar tillögur úr nýrri framkvæmdaáætlun í málefnum innflytjenda kynntu Samfylking og Vinstri græn á blaðamannafundi í gær. Framkvæmdaáætlunin hefur verið í vinnslu síðan í september en þriðji flokkurinn í minnihlutanum, Frjálslyndi flokkurinn, tók ekki þátt í gerð hennar.

Þau Dagur B. Eggertsson og Svandís Svavarsdóttir sátu fyrir svörum eftir fundinn. Spurður um fjarveru Frjálslyndra svaraði Dagur að gert hefði verið ráð fyrir þátttöku þeirra en flokkurinn hefði ekki haft tíma til að taka þátt í starfinu. Svandís áréttaði að framkvæmdaáætlunin væri í beinu framhaldi af vinnu fyrrverandi meirihlutans og að tímasetning fundarins væri því ekki bein viðbrögð við umræðu síðustu daga.

Þau sögðust bæði vænta góðra viðbragða frá Frjálslyndum á fimmtudag þegar áætlunin verður lögð fyrir borgarráð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×