Innlent

Taílensk kona var útilokuð

Sár og reið Wasana Maria telur að sér haf verið sýnd lítilsvirðing.
Sár og reið Wasana Maria telur að sér haf verið sýnd lítilsvirðing.

Búddistafélagið á Íslandi hélt hátíð í Ráðhúsi Reykjavíkur um helgina. Taílensk kona, Wasana Maria Thaisomboon, vildi leggja sitt af mörkum og hafði handgert flögg og barmmerki handa börnunum og vildi kynna taílensk-íslensk vinasamtök sem hún vill stofna og orðabók sem hún hefur unnið.

Hátíðin um helgina er haldin einu sinni á ári, á fullu tungli í nóvember. Kjartan Borg, ræðismaður Taílands, segir að hátíðin sé þakkargjörð til vatnsins. Þetta sé fjölskylduhátíð sem nú hafi verið haldin í annað sinn í Ráðhúsinu. Maria mætti í Ráðhúsið daginn fyrir hátíðina, talaði fyrst við ræðismanninn og svo búddamunkinn og fékk leyfi til þess að gefa það sem hún hafði búið til.

Maria stillti upp dótinu sínu en þegar hún mætti til hátíðarinnar daginn eftir hafði það verið tekið niður og sett til hliðar. Þegar hún óskaði eftir skýringum fékk hún litlar sem engar skýringar, aðeins sagt að þetta væri „pólitík" og að hún væri ekki búddatrúar.

Maria er bæði sár og reið og telur að sér og gestum sínum hafi verið sýnd lítilsvirðing. Hún telur hugsanlegt að ástæðuna megi rekja til viðtals í DV um helgina. Þar kemur fram að hún hafi orðið fyrir misnotkun af hálfu tannlæknis fyrir tveimur árum.

Pramaha Prasit, forstöðumaður Búddistafélagsins, segir að Maria hafi fengið leyfi til að kynna nýtt taílenskt-íslenskt vinafélag og hún hafi fengið sérstakt horn til þess. Hún hafi getað dreift bæklingum sínum á hátíðinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×