Viðskipti erlent

Ticket styrkist í viðskiptaferðum og skoðar fleiri yfirtökur

Pálmi haraldsson í fons Ticket, sænska ferðaskrifstofukeðjan, vex með kaupum á MZ Travel.
Pálmi haraldsson í fons Ticket, sænska ferðaskrifstofukeðjan, vex með kaupum á MZ Travel. MYND/Vilhelm

Sænska ferðaskrifstofukeðjan Ticket, sem er að fjórðungshluta í eigu Fons, hefur samið um kaup á 75 prósentum hlutafjár í MZ Travel, sænskri ferðaskrifstofukeðju sem sérhæfir sig í viðskiptaferðum. Ábyrgjast seljendur að aðrir hluthafar MZ selji einnig bréf sín.

Stjórnendur Ticket munu einnig vera að skoða kaup á fleiri fyrirtækjum á sviði ferðaþjónustu.

MZ Travel hefur vaxið gríðarlega hratt á undanförnum árum í sölu á ferðalögum fyrir viðskiptalífið en sala slíkra ferða er arðbærari en annarra ferðalaga. Greiðir Ticket 580 milljónir króna fyrir félagið en kaupverðið er að hluta til tengt rekstrarárangri MZ í ár og getur farið hæst í 750 milljónir króna. Velta MZ var um átta milljarðar króna í fyrra og skilaði félagið um fjörutíu milljóna króna hagnaði.

Gert er ráð fyrir að sameiginleg velta fyrirtækjanna nemi 45-55 milljörðum króna á þessu ári og hagnaður verði um eitt prósent af veltu eða tæpur hálfur milljarður króna.

Kaupin styrkja þau markmið stjórnenda Ticket að hlutfall rekstrarhagnaðar fyrir afskriftir (EBITDA) verði um sjö prósent af veltu innan þriggja ára.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×