Innlent

Svaraði ekki spurningunni

Kristinn H. gunnarsson framsóknarflokki Fékk ekki þau svör sem hann vonaðist til frá dómsmálaráðherra.
Kristinn H. gunnarsson framsóknarflokki Fékk ekki þau svör sem hann vonaðist til frá dómsmálaráðherra.

Björn Bjarnason dómsmálaráðherra svaraði ekki efnislega fyrirspurn Kristins H. Gunnarssonar, Framsóknarflokki, um hleranir á símum alþingismanna í fyrirspurnartíma í þinginu í gær.

Kristinn vildi vita hvort símar þingmanna hefðu verið hleraðir fyrir atbeina stjórnvalda og ef svo væri; hvenær og hjá hvaða alþingismönnum hverju sinni. Hann fýsti líka að vita um ástæður hlerunar hverju sinni og hvenær hún tengdist rannsókn á sakamáli.

Björn Bjarnason sagði hleranamál í farvegi eftir að Alþingi samþykkti lög um rétt nefndar til aðgangs að opinberum upplýsingum um öryggismál og eftir að Þjóðskjalasafnið birti upplýsingar um málið á heimasíðu sinni. „Ég er þeirrar skoðunar að þessi mál séu í réttum farvegi og slíkum sagnfræðilegum rannsóknum sé best fyrir komið hjá fræðimönnum,“ sagði Björn. Sagði hann einnig að fólk gæti haft af því brýna persónulega hagsmuni að ekki væri fjallað opinberlega um að mál hafi verið þannig vaxin að dómari hafi talið nauðsyn á að heimila hlerun.

Nokkrir þingmenn Samfylkingarinnar, auk Kristins, brugðust ókvæða við þessu svari ráðherra enda hefði hann engu svarað.

Björn Ingi Hrafnsson, Framsóknarflokki, tók á hinn bóginn undir orð Björns og sagði málið einkennast af upphlaupi og löngun þingmanna til að komast í fréttirnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×