Innlent

Bregðast þarf við vanda strax

Áætlun um aðstoð við þróunarríki helsti árangur loftslagsráðstefnu, segir umhverfisráðherra.
Áætlun um aðstoð við þróunarríki helsti árangur loftslagsráðstefnu, segir umhverfisráðherra. MYND/Brink

„Ég er hvorki bjartsýn né svartsýn,“ segir Jónína Bjartmarz umhverfisráðherra að lokinni loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í Kenía.

Jónína segir að helsti árangurinn sem náðst hafi á loftslagsráðstefnunni sé samþykkt aðlögunaráætlunar fyrir þróunarríki.

„Áætlunin felur í sér fimm ára loftslagsvæna aðstoð við þróunarríkin sem á annars vegar að gera þeim kleift að laga sig að loftslagsbreytingum og hins vegar að styrkja þau í því að framleiða orku á endurnýjanlegan hátt,“ segir umhverfisráðherra.

Í ræðu sinni á ráðstefnunni lagði Jónína áherslu á að bregðast þyrfti strax við þeim vanda sem steðji að loftslagsmálum. Í samtali við Fréttablaðið segir hún helsta verkefnið að fá þróunarríki á borð við Kína og Indland og auðríki eins og Bandaríkin og Ástralíu til að koma að borðinu með þeim ríkjum sem skuldbundu sig til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda samkvæmt Kyoto-bókuninni:

„Hvorki Kína né Indland hafa tekið sérlega vel í það að ganga til viðræðna einu sinni. Hins vegar vekur það ákveðna bjartsýni að þrír nýkjörnir öldungadeildarþingmenn sem gegna nú formennsku í sterkum þingnefndum hafa skorað á Bush forseta um samstarf um að setja lög og reglur sem takmarki losun í Bandaríkjunum.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×