Innlent

Ljósmyndarar stefna dómsmálaráðherra

Gunnar Leifur Jónasson, formaður ljósmyndararafélagsins Segir að ljósmyndastofur á landsbyggðinni séu í útrýmingarhættu.
Gunnar Leifur Jónasson, formaður ljósmyndararafélagsins Segir að ljósmyndastofur á landsbyggðinni séu í útrýmingarhættu. MYND/Valgarður

Ljósmyndastofur utan Reykjavíkursvæðisins eru óðum að hætta störfum og ljósmyndaiðn gæti lagst þar af, fari sýslumanns-embættin ekki eftir samkeppnislögum og láti af myndatökum fyrir vegabréf, segir Gunnar Leifur Jónasson, formaður Ljósmyndarafélags Íslands, en með nýju fyrirkomulagi vegabréfaútgáfu fóru sýslumenn að bjóða fólki upp á ókeypis myndatökur.

Félagið hefur stefnt Birni Bjarnasyni dómsmálaráðherra fyrir brot á ákvæði samkeppnislaga, sem fjallar um lögverndun iðngreina. „Sýslumenn landsins eru í raun að reka eigin ljósmyndastofur. Tekjutapið er 50 til 60 milljónir," segir Gunnar.

Kristján L. Möller, Samfylkingunni, spurði dómsmálaráðherra út í málið á þingi í gær. Sagði Björn að þetta fyrirkomulag hefði verið rætt við ljósmyndara á sínum tíma að viðstöddum fulltrúa Samtaka iðnaðarins. Svo virtist sem ljósmyndarar hefðu nú skipt um skoðun. „Ég tel að þetta sé þjónusta við neytendur og það eru á þriðja tug þúsunda manna sem hafa nýtt sér hana," sagði Björn.

Gunnar Leifur er á öndverðri skoðun. „Það var ákveðið að gera þetta án þess að tala við okkur, við fréttum af þessu fyrirkomulagi erlendis frá. Þá fengum við fund með ráðherra og á honum var okkur sagt að það sem fram færi hjá sýslumönnum yrði sjálfsafgreiðsla. Annað kom á daginn."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×