Erlent

Kalkúnadagurinn haldinn hátíðlegur

Þessir bandarísku hermenn í Afganistan reyndu sitt besta til þess að halda þakkargjörðardaginn hátíðlegan
Þessir bandarísku hermenn í Afganistan reyndu sitt besta til þess að halda þakkargjörðardaginn hátíðlegan

Fjórða fimmtudag í nóvembermánuði ár hvert halda Bandaríkjamenn upp á þakkargjörðardaginn. Þetta er ein stærsta hátíð ársins í Bandaríkjunum, jafnast á við jólin og páskana og markar jafnframt upphaf jólaverslunarinnar.

Máltíð dagsins á flestum heimilum er kalkúnn, og þess vegna er dagurinn stundum kallaður „kalkúnadagurinn“ þar vestra. Síðustu dagar hafa því snúist um það hjá mörgum að útvega góðan kalkún svo hægt verði að bjóða fjölskyldunni upp á almennilega þakkargjörðarmáltíð.

Eins og nafnið bendir til gengur þakkargjörðardagurinn út á það að fólk færir þakkir fyrir allt sem hefur fært þeim gæfu í lífinu. Sumir þakka guði, aðrir foreldrum sínum, ástvinum eða öðru því sem þeir telja sig eiga mest að þakka.

Föstudagurinn eftir þakkargjörðarhátíð hefur síðan lengi verið mesti verslunardagur Bandaríkjanna, því þá hefst fyrir alvöru jólavertíð kaupmanna og fólk flykkist í bæinn til þess að kaupa gjafir handa sínum nánustu.

Dagurinn í gær var þó óvenjulegur að því leyti að í ár höfðu fleiri verslanir opið á sjálfan þakkargjörðardaginn en venja er til, þannig að margir notuðu tækifærið og byrjuðu kauptíðina svolítið fyrr í ár.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×