Innlent

Hálfrar aldar starfsemi lokið

Guðmundur Einarsson forstjóri Heilsuverndarstöðvar Reykjavíkur.
Guðmundur Einarsson forstjóri Heilsuverndarstöðvar Reykjavíkur.

Starfsemi Heilsuverndarstöðvar Reykjavíkur flutti á föstudag úr húsnæði sínu við Barónsstíg eftir rúmlega hálfrar aldar starfsemi þar.

Í húsnæðinu voru starfræktar fimm deildir sem flytjast á tvo staði í Mjódd, Þönglabakka og Álfabakka; miðstöð mæðraverndar, miðstöð heilsuverndar barna, lungna- og berklavarnadeild, deild atvinnusjúkdóma og ónæmisvarna og stjórnsýsla heilsugæslunnar í Reykjavík.

Að sögn Guðmundar Einarssonar, forstjóra heilsuverndarstöðvarinnar, hafa flutningar gengið vel fyrir sig og ættu að hafa sem minnsta röskun í för með sér fyrir sjúklinga. Hann er ánægður með hvernig til tókst með innréttingar húsnæðisins í Mjódd, sérstaklega þann hluta sem hýsir heilsuvernd barna, og þakkar það góðu samstarfi millistjórnenda og arkitekta.

Húsnæðið í Mjódd verður ekki að fullu tilbúið fyrr en í vor en Guðmundur segir að það muni ekki koma að sök nema að því leyti að þröngt verði um stjórnsýsluna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×