Innlent

Hjúkrunarfræðingur til starfa á Kleppi gegn vilja sínum

Atvik milli tveggja hjúkrunarfræðinga að næturlagi heima hjá öðrum þeirra varð til þess að yfirmaður þeirra taldi ófært að þeir störfuðu áfram saman á geðsviði Landspítalans við Hringbraut. Annar hjúkrunarfræðingurinn, 36 ára gömul kona, var því flutt til í starfi og sagt að mæta til vinnu á Kleppi.

Konan sættir sig ekki við flutninginn og hefur stefnt spítalanum fyrir dómstóla. Málið kann að leiða til uppsagnar hennar.

Atburðurinn sem leiddi til þess að ákveðið var að flytja konuna á Klepp varð aðfaranótt laugardagsins 3. september. Hinn hjúkrunarfræðingurinn, sem er karlmaður, kvartaði undan konunni og hinn 17. október var henni tilkynnt í bréfi frá deildarstjóra móttökugeðdeildar að ágreiningur þeirra tveggja myndi valda röskun á starfinu. Hún ætti því að mæta til vinnu á Kleppi.

„Lýsing á atviki frá báðum aðilum, leiðir líkum að því að farsælast sé að hjúkrunarfræðingarnir vinni ekki náið saman á næstunni," segir í bréfi deildarstjórans.

Hvorki lögmaður konunnar né spítalinn vilja upplýsa hvað á að hafa gerst umrædda nótt. Konan sótti um flýtimeðferð á málinu fyrir dómstólum sem höfnuðu því þar sem í ráðningarsamningi konunnar væri ákvæði um að hún gæti flust á milli deilda og að vinnutími og laun væru eins og áður. Þá myndi hún eftir sem áður verða styrkt af geðsviði í endurmenntun í hugrænni atferlismeðferð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×