Innlent

Fundu flöskuskeyti og uppfylltu sextíu ára gamalt áheit

Hjónin Pétur Jónsson og Svava Kristjánsdóttir, eigendur Árdals á Hvanneyri, færðu nýlega Hvanneyrarkirkju andvirði tveggja ákavítisflaska til að uppfylla sextíu ára gamalt áheit sem þau fundu í flösku undir súð í húsi sínu.

Pétur og Svava fundu flöskuskeytið þegar verið var að gera upp íbúðarhús þeirra fyrir nokkru. Á miða í flöskunni höfðu fimm karlar ritað nafn sitt eigin hendi undir skilaboð þar sem heitið var á finnanda flöskunnar að gefa Hvanneyrarkirkju hundrað krónur.

Húsráðendur lentu ekki í miklum vandræðum með að framreikna þá upphæð því utan á flöskunni var miði þar sem kom fram að hún hafði innihaldið ákavíti og að hún hefði kostað fimmtíu krónur.

Það var svo þann 21. nóvember 2006, sextíu árum eftir að miðinn í flöskunni hafði verið skrifaður að Pétur og Svava færðu Ingibjörgu Jónasdóttur, sóknarnefndarmanni Hvanneyrarkirkju, andvirði tveggja ákavítisflaska, eða um átta þúsund krónur.

Að sögn Ingibjargar er ekki vitað hverjir fimmenningarnir voru eða hvaða hlutverk þeir höfðu. Flöskuskeytið er hins vegar skrifað aftan á auða vinnuskýrslu frá Húsameistara ríkisins sem getur verið vísbending um að þeir hafi verið iðnaðarmenn eða verkamenn.

Um þessar mundir stendur yfir viðgerð á innviðum hinnar hundrað ára gömlu Hvanneyrarkirkju þannig að fjárstuðningurinn kemur sér vel.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×