Innlent

Ekki rætt um að takmarka tekjur RÚV

Mörður Árnason
Mörður Árnason

Menntamálanefnd Alþingis ræddi ekki hugmyndir um takmarkanir á auglýsingatekjum og kostun dagskrárefnis hjá Ríkisútvarpinu á fundi um RÚV-frumvarpið sem fór fram í gær.

Mörður Árnason, þingmaður Samfylkingarinnar og fulltrúi í menntamálanefnd, segir að engar tillögur um þetta efni hafi verið lagðar fyrir nefndina. Hann segir að minnihlutinn vilji ræða hugmyndirnar því skrefið gæti verið jákvætt, en þá þyrfti að sjá RÚV fyrir hærra fjárframlagi. Að mati Marðar er eðlilegt að takmarka auglýsingatekjur og kostanir hjá RÚV, því stofnunin eigi ekki að miða dagskrárval sitt við efni þar sem mest er um auglýsingar og kostanir. Hann segir eðlilegt að fjölmiðlafyrirtæki á markaði sitji að megninu að auglýsingatekjum á markaði.

Ari Edwald, forstjóri 365, og Magnús Ragnarsson, sjónvarpsstjóri Skjásins, komu fyrir nefndina í gær og lýstu því yfir að þeir væru samþykkir þeim hugmyndum um takmarkanir á auglýsingatekjum og kostunum hjá RÚV sem ræddar hafa verið í fjölmiðlum síðustu daga. „Á fundinum lýsti ég yfir rökstuddum mótmælum gegn frumvarpinu. Við vonum að það verði ekki að lögum. Frumvarpið er samt skárra með þessum takmörkunum," segir Ari.

Kolbrún Halldórsdóttir, þingmaður Vinstri-grænna og fulltrúi í menntamálanefnd, er ekki hlynnt takmörkunum á auglýsingatekjum RÚV. Hún segist hins vegar vera til í að skoða takmarkanir eða bann á kostunum dagskrárefnis í Ríkisútvarpinu því þær hafi verið misnotaðar.

Sigurður Kári Kristjánsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og formaður menntamálanefndar, vill lítið segja um málið að svo stöddu. Hann segir að enn hafi ekki verið lagðar fram tillögur um mögulegar takmarkanir í nefndinni.

Aðspurður segir Sigurður að ekki liggi ljóst fyrir hvort tillögurnar verði lagðar fram á fundi nefndarinnar í dag. Hann vill ekki svara því hvort ætlunin sé að senda frumvarpið frá nefndinni án þess að leggja hugmyndirnar fyrir nefndina. Sem fyrr stefnir hann að því að afgreiða frumvarpið frá nefndinni í dag, en að hugsanlega muni það breytast.

Páll Magnússon útvarpsstjóri mun koma fyrir nefndina í dag.

SIGURÐUR KÁRI KRISTJÁNSSON


.
KOLBRÚN HALLDÓRSDÓTTIR


.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×