Innlent

Gengur vel að ráða í Reyðarfjörðinn

Alcoa Fjarðarál hefur auglýst eftir 400 starfsmönnum fyrir álverið á Reyðarfirði. Auglýst er eftir fólki í framleiðslustörf og skrifstofustörf, rafvirkjum og vélvirkjum og sérfræðingum á rannsóknarstofu.

Helga S. Guðmundsdóttir hjá ráðningarskrifstofunni Capacent segir ráðningar hafa gengið mjög vel. „Það er búið að manna fram í mars í framleiðslustörf og það bætist við í hverjum mánuði.

Ég hef engar áhyggjur af að það verði orðið fullmannað í vor.“ Helga segir um helming umsækjenda koma að austan en annars komi umsækjendur frá öllu landinu. „Það hafa verið talsvert af umsækjendum frá höfuðborgarsvæðinu, fólk sækir í að komast nær náttúrunni þar sem lífsgæðakapphlaupið er rólegra og hægt að eyða meiri tíma með fjölskyldunni.“

Átak hefur verið gert til að ráða konur, en rafvirkjum og öðrum áhugasömum er boðið í starfskynningu í álverið á laugardag. Samkvæmt Gallupkönnun hafa kvenkynsrafyrkjar nú hærri daglaun en karlar.„Við fögnum því, en hér eru allir rafvirkjar ráðnir á sömu launum,“ segir Helga.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×