Innlent

Óvissa með mengun eftir stækkun álvers

Mengun frá álverinu hefur ekki verið mælanleg í Reykjavík en þar er umferð stærsti mengunarþátturinn.
Mengun frá álverinu hefur ekki verið mælanleg í Reykjavík en þar er umferð stærsti mengunarþátturinn.

Lúðvík Gústafsson, deildarstjóri umhverfissviðs Reykjavíkurborgar, segir stækkun álversins ekki hafa verið rædda í umhverfisráði enda hafi engin beiðni komið um að það yrði gert.

„Í dag er ekki hægt að greina áhrif álversins í Staumsvík á loftgæði í okkar mælingum og áhrif umferðar á loftgæði eru mun meiri. Hvort það breytist við stækkun álversins er óvíst en mælingar á flúormengun sem gerðar voru fyrir tíu árum sýndu enga slíka mengun af völdum álversins.“

Bæjarstjórn Garðabæjar hefur ekki rætt sérstaklega fyrirhugaða stækkun álversins en Gunnar Einarsson bæjarstjóri segir að málið verði hugsanlega sett á dagskrá. „Þó svo að fyrirhuguð stækkun sé í lögsögu Hafnarfjarðar er ljóst að nærliggjandi bæjarfélög verða fyrir áhrifum af stækkuninni.

Það er þó erfitt að meta það á þessum tímapunkti hver áhrifin yrðu en mengunarþátturinn hefur verið í umræðunni og fyrirhuguð stækkun álversins mun væntanlega auka umferð í gegnum Garðabæ.“

Gunnar er formaður samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu og segir hann að fyrirhuguð stækkun álversins í Straumsvík hafi ekki verið rædd innan samtakanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×